Felt var reiður Nixon vegna embættisskipunar og vildi halda í sjálfstæði FBI gagnvart stjórnvöldum

Carl Bernstein og Bob Woodward í gær.
Carl Bernstein og Bob Woodward í gær. AP

Bandaríska dagblaðið Washington Post staðfesti í gærkvöldi að hinn svokallaði „Deep Throat“ ónafngreindur heimildarmaður Bobs Woodwards og Carls Bernsteins, blaðamanna á Washington Post, væri Mark Felt, fyrrverandi aðstoðarforstjóri bandarísku alríkislögreglunnar, FBI.

Felt hafði bæði ástæður og möguleika á að veita upplýsingar um Watergate-hneykslið sem þeir Woodward og Bernstein rannsökuðu. Málið leiddi til þess að Richard M. Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna 9. ágúst 1974 og margir af aðstoðarmönnum hans voru dæmdir í fangelsi.

Þeir sem séð hafa kvikmyndina All the Presidents Men muna eflaust eftir dularfullum manni sem hitti Woodward á bílastæði og veitti honum upplýsingar. Bernstein og Woodward hafa alltaf haldið því leyndu hver hann væri og ætluðu aldrei að gefa það upp fyrr en hann væri látinn. „Hver var Deep Throat?“ er spurning sem velt hefur verið upp í fjölda bóka, þúsundum greina og hundruð sjónvarpsþátta.

Nánast allir þeir sem unnu undir stjórn Nixons eða tengdust ríkisstjórninni á þessum tíma, hafa verið nefndir til sögunnar, allt frá Henry A. Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra til Patricks J. Buchanans, ræðuritara Nixons, og sjónvarpskonunnar Diane Sawyer, sem starfaði á þessum tíma í Hvíta húsinu. Nýlega birtu nemendur í rannsóknarblaðamennsku við háskólann í Illinois grein þar sem því var haldið fram að Deep Throat væri Fred F. Fielding, fyrrum ráðgjafi í Hvíta húsinu. Prófessorinn þeirra fullyrti að þetta væri rétt og niðurstöðurnar voru birtar um allan heim.

„Ég er náunginn sem kallaður var Deep Throat“

Woodward og Bernstein ætluðu aldrei að gefa upp hver Deep Throat væri fyrr en eftir andlát hans. Svo kom hann sjálfur fram í gærmorgun og sagðist vera „Deep Throat“ í grein í tímaritinu Vanity Fair. „Ég er náunginn sem kallaður var Deep Throat“ segir hann einfaldlega í greininni.

Höfundur greinarinnar er ungur lögfræðingur frá Kaliforníu, John D. O´Connor að nafni. Joan, dóttir Felt, hafði fengið O´Connor til liðs við sig til að reyna að fá föður sinn til að viðurkenna að hann væri í raun dularfulli heimildarmaðurinn, að því er fram kemur í Washington Post í dag. Í framhaldi af því hafði O´Connor samband við Vanity Fair og sagði að skjólstæðingur hans væri hinn dularfulli „Deep Throat“ og vildi koma fram í blaðinu gegn greiðslu. Því hafnaði blaðið.

Fimmtán blaðamenn unnu að greininni í tvö ár

Þá hugðist Connor að skrifa bók um málið en náði engum útgáfusamningnum og hafði að lokum aftur samband við Vanity Fair. Blaðið samþykkti að birta fréttina og setti fimmtán blaðamenn í málið sem unnu að því í tvö ár.

Leyndin var svo mikil að þegar blaðið var sent í prentun nú í vikunni var höfð á því röng forsíða til að málið kæmist ekki upp.

Það þykir líka merkilegt að Carl Bernstein sjálfur vinnur fyrir Vanity Fair en hann var ekkert látinn vita um málið, ritstjórarnir óttuðust að Bernstein myndi láta Washington Post vita, og blaðið yrði á undan með fréttina.

Woodward og Bernstein neituðu að staðfesta

O´Connor segir í greininni að Felt-fjölskyldan og Felt sjálfur hafi viljað að hann segði frá þessu. Felt-fólkið sagðist ekki upplýsa þetta til að græða á þessu en það vonaðist til „að þetta yrði til þess að afla þeim einhverra tekna til að borga reikningana,“ eins og segir í greininni.

Woodward og Bernstein kom það algerlega í opna skjöldu, að Felt skyldi stíga fram með þessum hætti og í fyrstu neituðu þeir og aðrir á Washington Post að staðfesta fréttina. Sagðist Woodward hafa heitið heimildarmanni sínum trúnaði fram yfir andlát hans og við það ætlaði hann að standa. En eftir fund með Leonard Downie Jr., núverandi ritstjóra blaðsins, ákváðu þeir Woodward og Bernstein í gærkvöldi að staðfesta yfirlýsingu Felts.

Felt-fjölskyldan vildi fá Woodward með í að upplýsa um leyndarmálið

Woodward hafði þó vitað í nokkurn tíma að fjölskylda Felt vildi gera leyndarmálið opinbert og þau höfðu nokkrum sinnum reynt að fá hann til að skrifa með sér bók þar sem þau myndu í sameiningu ljóstra upp um málið.

Woodward var hins vegar efins um að Felt væri í nógu góðu ástandi til að taka ákvörðun um að gera leyndarmál sitt opinbert. Hann er nú 91 árs, hefur fengið heilablóðfall og er ekki við góða heilsu.

Felt vildi verða forstjóri FBI

En hvers vegna vildi Felt koma upp um svikabrögðin sem Nixon forseti og menn hans beittu? Þegar J. Edgar Hoover, fyrsti og þá eini forstjóri FBI, dó 1972, vildi Felt verða eftirmaður hans. Hann vildi líka að stofnunin héldi sjálfstæði sínu gagnvart stjórnvöldum. Hann varð því bálreiður út í Nixon þegar maður utan stofnunarinnar, L. Patric Gray III aðstoðardómsmálaráðherra, var valinn í embættið. Felt var því ákveðinn í að hindra að stjórnvöldum tækist að stjórna rannsókn FBI á innbrotinu í höfuðstöðvar kjörnefndar Demókrataflokksins í Watergate byggingunni í Washington. Þannig kom það til að hann tók að sér hlutverk uppljóstrarans og varð líklega frægasti ónafngreindi heimildarmaður okkar tíma.

bryndis@mbl.is

Mark Felt.
Mark Felt. AP
Woodward og Bernstein, er þeir unnu saman sem blaðamenn á …
Woodward og Bernstein, er þeir unnu saman sem blaðamenn á Washington Post. AP
Richard M. Nixon heldur afsagnarræðu sína 9. ágúst 1974. Við …
Richard M. Nixon heldur afsagnarræðu sína 9. ágúst 1974. Við hlið Nixons er Pat, eiginkona hans. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert