Meintur raðnauðgari í Svíþjóð ákærður

Rúmlega þrítugur Svíi var í dag ákærður fyrir röð nauðgana og morðtilrauna í Umea á árunum 1998-2005. Hann var handtekinn 31. mars, grunaður um að hafa ráðist á sex konur á þessu tímabili.

Annika Oster yfirsaksóknari sagði manninn hafa verið ákærðan fyrir sex nauðganir og tvær morðtilraunir, en hann mun hafa reynt að myrða tvö fórnarlamba sinna.

Nafn mannsins hefur ekki verið birt, en sænskir fjölmiðlar hafa kallað hann „Hagamanninn“ eftir hverfinu í Umea þar sem flestar nauðganirnar voru framdar. Í fyrstu neitaði maðurinn öllum ásökunum, en að sögn lögreglu viðurkenndi hann síðar fyrir rannsóknarlögreglumönnum að hafa nauðgað konunum sex.

Réttarhöldin yfir manninum hefjast á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert