Olmert heimsækir Bandaríkin í næstu viku

Ehud Olmert á þingfundi í fyrradag
Ehud Olmert á þingfundi í fyrradag RONEN ZVULUN

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, fer í næstu viku í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna. Þar mun hann ræða við ráðamenn um málefni Írans en ekki er búist við áframhaldandi viðræðum um brottför Ísraela frá Vesturbakkanum, enda hafa þær áætlanir verið lagðar á hilluna.

Ekki er búist við því að mikill árangur verði af heimsókninni. Olmert hefur lítinn stuðning heimafyrir og mælist með um 20% fylgi. Þá eiga ráðamenn í Washington í vök að verjast eftir að repúblikanar töpuðu bandaríska þinginu í hendur demókrata í vikunni.

Þegar Olmert heimsótti Bandaríkin í maí sl. skömmu eftir að hann tók við embætti forsætisráðherra var brottför Ísraela frá Vesturbakkanum efst á baugi auk kjarnorkumála Írana.

Málefni Írana verða því líklega það eina sem rætt verður formlega meðan á heimsókninni stendur. Ísraelar og Bandaríkjamenn vilja sannfæra alþjóðasamfélagið um að ógn stafi af kjarnorkuáætlun Írana, ekki er þó víst að Bandaríkjamenn vilji grípa til róttækra aðgerða gegn Írönum að svo stöddu en almennt er litið svo á að sigur demókrata í nýafstöðnum kosningum megi rekja til aðgerða Bandaríkjamanna í Miðausturlöndum, einkum í Írak.

Ísraelska dagblaðið Yediot Ahronot segir frá því í dag að Olmert ætlist til þess að Bandaríkjamenn heiti Ísraelum vernd ef Íranar geri sig líklega til að gera árásir á Ísrael.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert