Blair varar við alþjóðlegri baráttu

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands.
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands. Reuters

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, segir að heimurinn þurfi að „vakna“ til þess að sjá hina miklu baráttu sem á sér stað á milli hófsamra og öfgasinnaðra afla.

Blair sem hefur verið á ferðalagi um Miðausturlönd sagði við lok ferðarinnar að barátta hugmynda væri áskorun 21. aldar.

Hann kallaði eftir því að ríki í Miðausturlöndum myndi „bandalag hófsemdar“ til þess að taka á þeirri „hernaðarlegu ógn“ sem stafi af Íran.

Í ræðu sem hann flutti í Dubai kom fram að lausnin sé að finna innan svæðisins en áhrifa hennar muni gæta um allan heim.

Blair vonast með ferð sinni til Miðausturlanda að stigin verði skref til framfara hvað varðar friðarferlið á svæðinu. Auk þess vill hann koma á framfæri framtíðarsýn sinni um bandalag hófsamra sem veiti öfgahyggju viðnám.

Blair sagði m.a. í ræðu sinni að á Vesturbakkanum og í Ísrael væri öfgahyggja byggð á „brenglaðri útgáfu Íslam“.

„Við verðum að vakna. Þessi öfgaöfl sem byggja á brenglaðri og vitlausri túlkun á Íslam eru ekki að berjast í hefðbundnu stríði, en þeir eiga í baráttu við okkur.“

„Og „við“ erum ekki einvörðungu Vesturlönd, og enn síður Bandaríkin og bandamenn þeirra. „Við“ eru allir þeir sem trúa á umburðarlyndi, virðingu fyrir öðrum og frelsi,“ sagði Blair.

„Við verðum að kalla eftir bandalagi hófsamra á þessu landsvæði og fyrir utan það svo hægt sé að vinna sigur á öfgamönnunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert