Samkeppniseftirlit Evrópusambandsins hefur sektað 11 evrópsk og japönsk fyrirtæki fyrir ólöglegt verðsamráð á búnaði tengdum virkjanaframkvæmdum. Er fyrirtækjunum gert að greiða 750 milljónir evra, 67,5 milljarða króna, í sekt og er þetta önnur hæsta sektargreiðsla sem Evrópusambandið hefur krafist vegna ólöglegs verðsamráðs.
Fyrirtækin sem umræðir eru: ABB, Alstom, Areva, Fuji, Hitachi Japan AE Power Systems, Mitsubishi Electric Corporation, Schneider, Siemens, Toshiba og VA Tech. Eru þau fundin sek um ólöglegt verðsamráð og einokun á markaði.
Siemens er gert að greiða mest eða 418 milljónir evra fyrir að hafa stýrt verðsamráðinu og er það hæsta sekt sem samkeppniseftirlit ESB hefur gert einu fyrirtæki að greiða fyrir ólöglegt verðsamráð.
Yfirmaður samkeppnismála hjá ESB, Neelie Kroes, segir að með þessu verði sextán ára einokun á þessu sviði lokið. Einokun sem hafi kostað bæði neytendur og þjónustufyrirtæki fé.
Kroes hefur gert það að meginviðfangsefni samkeppnisyfirvalda ESB að brjóta á bak einokun og á síðasta ári var fyrirtækjum og stofnunum gert að greiða 1,8 milljarð evra í sektir vegna þessa.