Danskir sorphirðumenn snúa aftur til vinnu

Sorphirðumenn í Árósum í Danmörku hafa snúið aftur til vinnu sinnar en um tíma í vikunni lögðu sorphirðumenn í mörgum borgum í landinu, þar á meðal í Kaupmannahöfn, einnig niður vinnu til að sýna félögum sínum í Árósum stuðning.

23 starfsmenn fyrirtækisins HCS Renovation í Árósum féllust í gær á samkomulag, sem fulltrúar þeirra gerðu við fyrirtækið. Deilan snérist um bréf, sem tveir félagar þeirra fengu sent frá fyrirtækinu þar sem bent var á að þeir hefðu verið lengi frá vinnu vegna veikinda og með fylgdi aðvörun um að vegna mikilla fjarvista ættu þeir á hættu uppsögn.

Sorphirðumennirnir kröfðust þess að aðvörunin yrði dregin til baka en því hafnaði fyrirtækið. Starfsmenn HCS segjast hins vegar túlka samkomulagið frá í gær svo, að viðvörunin sé afturkölluð þótt það standi ekki beinum orðum.

Sorphirðumennirnir hafa raunar látið í ljós óánægju með ýmislegt fleira hjá vinnuveitanda sínum og er tekið á þeim málum í samkomulaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert