Herferð gegn kynlífsferðum barnaníðinga

Danska lögreglan hyggst hrinda af stað átaki til að koma í veg fyrir kynlífsferðir barnaníðinga til fátækari landa, í samvinnu við danska ferðamannaiðnaðinn og dönsk baráttusamtök. Hefur lögreglan boðið viðkomandi aðilum til fundar um leiðir til að stemma stigu við kynlífsferðamennsku en ótilgreindur fjöldi Dana er talinn fara til Tailands og fleiri landa til þess eins að leita eftir kynlífi við börn. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

„Ef grunur kemur upp um að Danir ferðist til Austurlanda eða annarra landa til að beita börn kynferðislegu ofbeldi þá viljum við gjarnan fá upplýsingar um það frá skipuleggjendum, fararstjórum eða samferðamönnum þannig að við getum kannað málið og séð til þess að viðkomandi verði refsað. Þetta á einnig við þótt brotin séu framin í öðrum löndum,” segir Jakob Scharf talsmaður dönsku lögreglunnar.

Þá segir hann dönsk lögregluyfirvöld ætla að leggja sig fram um að auka samstarf við yfirvöld í viðkomandi löndum m.a. með það fyrir augum að tryggja að danskir lögreglumenn fái aðgang að fórnarlömbum danskra kynferðisglæpamanna og hugsanlegum vitnum.

Samkvæmt dönskum lögum, sem tóku gildi á síðasta ári, er mögulegt að refsa dönskum ríkisborgurum og þeim sem búsettir eru í Danmörku fyrir kynferðisbrot gegn börnum í öðrum löndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert