Grillaði kærustuna á veröndinni

Bandarískur karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir að myrða, búta niður og grilla fyrrverandi kærustu sína. Timothy Shepherd játaði að hafa kyrkt hina 19 ára gömlu Tyneshu Stewart og eytt líkamsleifum hennar með fyrrgreindum hætti.

Upp komst um athæfið eftir að reykjarmökkur og sterkur fnykur frá grillinu barst yfir til nágranna Shepherds í Houston í Texas. „Lyktin var hræðileg, ég velti því fyrir mér hvað hann væri að brenna“, sagði Louis Evans, einn nágrannanna um ólyktina, sem lá yfir hverfinu í tvo daga.

Aðspurður sagðist Shepherd vera að grilla fyrir brúðkaup. Hann hefur nú verið settur í varðhald og ákærður fyrir morðið og að eyða sönnunargögnum en samkvæmt lögreglunni voru engar líkamsleifar eftir af fórnarlambinu.

Ástæðan fyrir morðinu er talin vera sú að Shepherd var reiður yfir að Stewart hefði hafið nýtt ástarsamband. Sky fréttavefurinn segir frá þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert