Íraskir sjítar brenna bandaríska fána á mótmælafundi í Najaf

Hundruð þúsunda hrópandi íraskra sjíta brenndu og tröðkuðu á bandarískum fánum á mótmælafundi þar sem veru Bandaríkjamanna í Írak er mótmælt. Sjítaklerkurinn Moqtada al-Sadr kallaði eftir mótmælunum en nú eru fjögur ár liðin frá falli Saddams Husseins fyrrverandi Íraksforseta.

Fjölmennir hópar karla, kvenna og barna, sem héldu á íröskum fánum og báru mótmælaspjöld sem bera slagorð gegn Bandaríkjunum, komu saman Najaf, sem er heilög borg sjíta, og hrópuðu: „Nei, nei við Bandaríkjunum! Já, já við frelsinu!“

Gríðarleg öryggisgæsla var einnig í Bagdad þar sem óttast var að gerðar væru árásir. Fyrir fjórum árum síðan var gríðarstór bronsstytta af Saddam rifin þar niður. Atburðurinn þykir vera táknrænn fyrir falla fyrrum Íraksforsetans eftir innrás Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Írak.

Búið er að leggja á sólarhrings útgöngubann á öll ökutæki. Þá voru allir aðalvegir og brýr auðar þar sem fólk hélt sig innan dyra af ótta við að árásir yrðu gerðar.

Íbúar Bagdad sem fögnuðu Bandaríkjaher gríðarlega þann 9. apríl árið 2003 vilja nú að herinn yfirgefi landið. Þeir segja að rekja megi blóðsúthellingarnar og glundroðann í landinu til hersetunnar, en margir háttsettir stjórnmálamenn í landinu hafa sagt að herinn sé ekki lengur velkominn.

Margir líta á fjöldamótmælin í Najaf sem dæmi um styrk al-Sadr, en hann hefur ekki sést í yfir tvo mánuði eða frá því gripið var til viðamikilla öryggisaðgerða í Bagdad. Megintilgangurinn með aðgerðunum var að stöðva uppreisnarmenn sjítaklerksins sem eru sakaðir um að myrða súnníta.

Bandaríkjaher segir að al-Sadr, sem margir Bandaríkjamenn líta á sem helstu ógn við stöðugleika í landinu, hafi farið í Írans. Þessu neita aðstoðarmenn hans hinsvegar. Þeir segja að hann sé enn í Írak. Al-Sadr hefur ekki sést á mótmælafundinum.

Frá mótmælunum í Najaf í dag.
Frá mótmælunum í Najaf í dag. Reuters
Skilaboð stuðningsmanna Moqtada al-Sadr til Bandaríkjanna eru skýr.
Skilaboð stuðningsmanna Moqtada al-Sadr til Bandaríkjanna eru skýr. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert