Svíar mega flytja inn vín sjálfir frá öðrum ESB-ríkjum

Systembolaget, sænska „ríkið.
Systembolaget, sænska „ríkið." mbl.is/Ómar

Evrópudómstóllinn úrskurðaði í dag, að sænska áfengiseinkasalan hefði engan rétt til að banna einstaklingum að flytja áfengi inn til Svíþjóðar frá öðrum Evrópusambandsríkjum, þar á meðal á netinu. Segir dómstóllinn, að í slíku felist takmörkun á frjálsu vöruflæði og það sé í andstöðu við lög ESB.

Dómstóllinn, sem situr í Lúxemborg, segir að Systembolaget, sem á og rekur áfengisverslanir í Svíþjóð, noti óhóflegar aðferðir til að réttlæta þá stefnu sína, að berjast gegn ofneyslu áfengis með því að takmarka rétt einstaklinga til að flytja sjálfir inn vín og bjór.

Björn Rydberg, forstjóri Systembolaget, segir við Dagens Nyheter, að dómurinn muni ekki hafa mikil áhrif vegna þess að þeir sem flytja sjálfir inn áfengi þurfi áfram að greiða áfengisgjald og önnur opinber gjöld. Þegar flutningskostnaður bætist við sé verðið það sama og í sænskum vínbúðum.

Málið var höfðað af Svíanum Klas Rosengren, sem ásamt 10 öðrum pantaði vín frá Spáni gegnum danska netsölu í þeirri von að það væri ódýrara en að kaupa vínið í sænskri vínbúð. Systembolaget lagði hald á sendinguna og Rosengren höfðaði þá mál fyrir dómstól í Svíþjóð. Það mál fór alla leið til hæstaréttar landsins, sem óskaði eftir því að Evrópudómstólinn kvæði upp úrskurð um hvort innflutningsbannið væri réttlætanlegt.

Samkvæmt sænskum lögum veitir Systembolaget sérstaka pöntunarþjónustu fyrir þá, sem vilja kaupa víntegundir sem ekki er annars hægt að kaupa í Svíþjóð.

Sænsk stjórnvöld hafa sætt miklum þrýstingi frá Evrópusambandinu, sem vill að slakað verði á ströngum reglum um áfengissölu í landinu. Embættismenn ESB segja, að áfengiseinkasalan sé andstæð reglum um frjálst flæði vöru á innri markaði Evrópusambandsins en Svíar segja hana nauðsynlega til að tryggja almannaheilsu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert