Voru Hillary og Norgay fyrstir á tind Everest?

Margir hafa freistað þess að ná á tind Everest-fjalls
Margir hafa freistað þess að ná á tind Everest-fjalls Reuters

Hópur fjallgöngumanna sem reynir að leysa leyndardóminn um hvort Nýsjálendingurinn Edmund Hillary og Nepalinn Tenzing Norgay hafi fyrstir klifið Everest-fjallið árið 1953, segist telja að ekki sé hægt að útiloka að breskir fjallgöngumenn hafi náð tindinum árið 1924.

Leiðangurinn sem nefnist Altitude Everest hefur að undanförnu reynt að líkja eftir leiðangri sem farinn var á þriðja áratug síðustu aldar. Leiðangurinn náði á topp Everest í dag eftir að hafa klifið fjallið klæddir í sambærilegum fatnaði og með svipaðan búnað og Bretarnir George Mallory og Sandy Irvine notuðu þegar þeir fóru á Everest fyrir 83 árum síðan. Bretarnir sáust síðast á lífi þann 8. júní 1924 og áttu þá einungis ófarna 800 metra á topp Everest. Everest er hæsta fjall jarðar, alls 8.844,43 metrar yfir sjávarmáli skv. opinberum mælingum kínverska ríkisins frá október 2005.

Á Wikipedia upplýsingavefnum kemur fram að lík George Mallory fannst árið 1997 í 8530 metra hæð. Tvær vísbendingar gefa sérstaklega til kynna að þeir félagar hafi komist á tindinn:

George Mallory var vanur að vera með mynd af eiginkonu sinni í vasanum. Myndin fannst hins vegar ekki og því er haldið að Mallory hafi grafið myndina í ísinn á tindinum.

Snjógleraugu George voru í vasa hans, sem bendir til þess að þeir hafi verið á göngu að nóttu til og fallið. Ef þeir hafi náð tindinum seinni part dags hafa þeir þurft að ganga niður um kvöldið og nóttina - þá er ekki þörf fyrir gleraugun.

Fyrstu Íslendingarnir til að klífa Everest voru þeir Björn Ólafsson, Einar Stefánsson og Hallgrímur Magnússon sem komust á tind fjallsins að morgni 21. maí 1997.

Þann 16. maí 2002 komst Haraldur Örn Ólafsson á tind Everest en það var lokahluti leiðangurs hans sem fólst í því að komast á norður og suður heimskautin og hæstu tinda allra heimsálfa.

Svo má bæta við einu heimsmeti íslendinga sem seint verður slegið. Aðeins er vitað um 4 íslendinga sem hafa reynt að komast á Everest, og allir 4 komust á tindinn. Engin þjóð hefur leikið þetta eftir, að því er segir á Wikipedia.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert