Aldrei fleiri konur á franska þinginu

Rachida Dati dómsmálaráðherra Frakklands.
Rachida Dati dómsmálaráðherra Frakklands. AP

Konur hafa aldrei verið jafn margar á franska þinginu eins og nú að loknum þingkosningum. Á sunnudag var fyrsta svarta konan af meginlandi Frakklands kosin á þing. George Pau-Langevin var kjörin á þing fyrir sósíallista í París en hún er fædd á eyjunni Guadeloupe í Karabíska hafinu. Hins vegar eru hvítir karlmenn áfram í meirihluta á þinginu.

Mikill þrýstingur var á franska stjórnmálaflokka fyrir kosningarnar að auka hlut kvenna og annarra hópa sem hingað til hafa ekki verið fjölmennir á franska þinginu. Má þar nefna innflytjendur og fólk af erlendum uppruna, að því er segir í frétt AFP fréttastofunnar. Hvergi í Evrópu búa jafnmargir múslimar og í Frakklandi en þeir eru um fimm milljónir talsins. Margir hverjir frá Afríku. Hins vegar komst enginn frambjóðandi sem er af afrískum uppruna á þing á meginlandi Frakklands.

Alls eru 107 þingsæti af 577 skipuð konum eða 18,5%. Er það mikil aukning þar sem áður voru franskar þingkonur 31 talsins. 61 þingkona kemur frá vinstri og 46 frá hægriflokkum. Í ríkisstjórn Frakklands eru 7 ráðherrar af 15 konur og er talið að svipað verði upp á teningnum þegar ný ríkisstjórn verður skipuð á næstu vikum. Athygli vakti er Sarkozy, forseti Frakklands, skipaði Rachida Dati dómsmálaráðherra í síðasta mánuði. Hún er fædd í Frakklandi en foreldrar hennar koma frá Norður-Afríku.

Franska dagblaðið Le Monde segir í dag að þrátt fyrir fjölgun kvenna á þingi þá sé aukningin ekki neitt til þess að hrópa húrra fyrir. Að meðaltali eru 17,7% þingmanna á evrópskum þjóðþingum konur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert