Olmert staðfestir vilja til samninga um stofnun ríkis Palestínumanna

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, með Abdelelah al Khatib, utanríkisráðherra Jórdaníu, …
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, með Abdelelah al Khatib, utanríkisráðherra Jórdaníu, og Ahmed Aboul Gheit, utanríkisráðherra Egyptalands, í Jerúsalem í dag. Reuters

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, staðfesti í dag að hann hefði í hyggju að ganga til samningaviðræðna við Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna, um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna. Olmert segir hins vegar ekki liggja fyrir ákvörðun um það hvenær slíkar viðræður hefjist. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

“Ég er staðráðinn í að skapa leið sem mun gera mér fært að eiga alvarlegar viðræður við Abu Mazen, sagði hann og vísaði þar til Abbas. "Og bara svo það sé á hreinu þá ber hann fulla ábyrgð og er tilbúinn til að taka áhættu. Ísraelar standa einnig frammi fyrir áhættum en við erum nógu sterk til að geta tekið þær.”

Olmert sagði “hljóðlátt samkomulag” vera í gildi á milli yfirvalda í Ísrael og á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum um það hvernig draga megi úr spennu á milli Ísraela og Palestínumanna. Þá segir hann það vera skoðun sína að best sé að standa þannig að málum að byrjað verði á því að ræða þau atriði sem auðveldust séu viðureignar og geyma erfiðari mál þar til síðar í samningsferlinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert