Vill fara aftur til Ástralíu

Indverskur læknir, Mohamed Haneef, sem var ákærður í tengslum við fyrirhugaðar hryðjuverkaárásir í Bretlandi í lok júní, ætlar að berjast fyrir því að fá atvinnuleyfi á ný í Ástralíu en honum var vísað úr landi um helgina. Á föstudag felldu áströlsk stjórnvöld niður ákæru á hendur lækninum en hann var í haldi lögreglu í rúmar þrjár vikur á grundvelli hryðjuverkalaga.

Haneef var ákærður fyrir að styðja hryðjuverk með því að útvega ættingja sínum í Bretlandi SIM-farsímakort. Ættingi hans hefur verið ákærður fyrir aðild að fyrirhuguðum hryðjuverkum í Bretlandi.

Haneef var handtekinn þann 2. júlí sl. á flugvellinum í Brisbane á leið til Indlands. Haneef gaf þá skýringu er hann var handtekinn, án þess að vera með miða til baka, að hann væri að flýta sér heim þar sem honum og konu hans hefði fæðst dóttir nokkrum dögum áður og hann væri að fara að hitta þær mæðgur.

Haneef, sem er 27 ára, vann á Gold Coast-sjúkrahúsinu í Queensland en hann kom til Ástralíu frá Bretlandi á síðasta ári. Er hann fjarskyldur ættingi Kafeel og Sabeel Ahmed, sem voru handteknir af lögreglu í Bretlandi í tengslum við fyrirhuguð hryðjuverk.

Þremenningarnir bjuggu saman í Liverpool í tæp tvö ár áður en Haneef flutti til Ástralíu. Þeir hafa haldið sambandi í gegnum síma og á netinu eftir það, samkvæmt því sem ástralska lögreglan sagði er hún vann að rannsókn málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert