Hefna sín á slæmum yfirmönnum með því að svíkjast um

Launþegar sem eru skammaðir af yfirmönnum sínum ná gjarnan fram hefndum með óbeinum hætti, svo lítið ber á, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem gerð var í Flórída. Þátttakendur í rannsókninni voru rúmlega 180 launþegar í ýmsum starfsgreinum. 30% þeirra sem höfðu slæma yfirmenn kváðust hafa viljandi farið sér hægt í vinnunni og vísvitandi gert villur.

Aftur á móti kváðust aðeins sex af hundraði þeirra sem höfðu ekkert út á yfirmann sinn að setja hafa gert slíkt hið sama. Tuttugu og sjö prósent þeirra sem höfðu vonda yfirmenn kváðust hafa beinlínis reynt að fela sig fyrir yfirmanninum, og 33% viðurkenndu að leggja sig ekki alla fram, og 29% kváðust hafa tilkynnt veikindi þótt ekkert hefði amað að þeim.

Einn höfunda rannsóknarinnar sagði að samskipti vinnuveitenda og launþega í Bandaríkjunum væru nú almennt verri en nokkru sinni fyrr.

Starfsfólk sem aldrei sætti aðfinnslum yfirmanna var þrefalt líklegra til að reyna sjálft að leysa úr vandamálum og leggja fram við yfirmenn sína tillögur er miðuðu að því að bæta hag fyrirtækisins, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar.

Þátttakendur í rannsókninni sögðu, að meðal þess sem þeir hafi orðið að þola af hálfu yfirmanna sinna væru skammir að öðrum áheyrandi, fá ekki svar við tölvupósti og öðrum fyrirspurnum, og ávítanir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert