Vilja setja sérstaka stjórn yfir heimastjórn Grænlands

Frá Grænlandi
Frá Grænlandi

Danski þjóðarflokkurinn vill setja sérstaka stjórn yfir heimastjórn Grænlands. Krafan kemur í kjölfar heimildarþáttar danska sjónvarpsins, Flóttanum frá Grænlandi, þar sem lýst er félagslegum vandamálum á Grænlandi. Grænlensk stjórnvöld vísa kröfu danska þjóðarflokksins alfarið á bug.

„Þingið ætti að skipa sérstaka bráðabirgðastjórn yfir heimastjórnina. Allir sem búa á Grænlandi eru danskir ríkisborgarar. Við getum ekki sætt okkur við, að við eigum börn, sem lifa á vatni og brauði, sofa í stigagöngum og eru fórnarlömb sifjaspells í stórum stíl," sagði  Søren Espersen, formaður Grænlandsnefndar danska þjóðarflokksins, í viðtali í fréttatíma danska sjónvarpsins.

Í yfirlýsingu frá Norðurlandaráðsþinginu, sem lauk í Ósló í dag, vísar Aleqa Hammond, samstarfsráðherra Grænlendinga, sem einnig fer með utanríkismál í heimastjórninni kröfum danska þjóðarflokksins á bug. „Danski þjóðarflokkurinn hvorki getur, né má skipta sér af innri málefnum okkar," segir  Hammond í yfirlýsingunni og hvetur til þess að ábyrgðasvið Grænlendinga í eigin málum verði virt.

Aðrir danskir stjórnmálaflokkar eru sammála um að vísa kröfum danska þjóðarflokksins frá. „Grænland þarf á aðstoð að halda, ekki yfirgangi. Og það yrði eins og hvert annað kjaftshögg, ef Danir tækju völdin af heimastjórninni, stórt skref sem myndi valda miklum skaða í samskiptum Dana og Grænlendinga, sagði Line Barfoed, formaður félagsmálanefndar Einingarflokksins, í viðtali við danska ríkissjónvarpið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert