Ef ljósin eru slökkt og talað lágt mun fjallið ekki gjósa

Íbúar í grennd við Kelud eru við öllu búnir.
Íbúar í grennd við Kelud eru við öllu búnir. AP

Miklar jarðhræringar hafa í dag verið í hinu mannskæða Kelud-eldfjalli á Indónesíu, og gæti það þýtt að öflugt eldgos sé yfirvofandi, segja vísindamenn. Íbúar í grennd við fjallið vilja þó hvergi fara, og vona að ef þeir gangi hljóðlega um muni fjallið ekki vakna.

Kelud er á eynni Jövu, sem er mjög þéttbýl. Styrkur og tíðni skjálftavirkninnar í fjallinu nú er þegar orðin meiri en í aðdraganda síðasta goss í fjallinu, sem varð 1990, og bendir til að kvika sé í þann mund að brjótast upp á yfirborðið.

Yfir eitt hundrað þúsund manns búa á svæðum sem talin eru geta verið í hættu ef fjallið gýs, og hafa verið á varðbergi í tvær vikur. Enginn hefur þó flúið. Eru margir sagðir trúa þeirri þjóðsögu að ef þeir haldi sig heima, hafi ljósin slökkt og tali lágt muni fjallið ekki gjósa.

En indónesískir vísindamenn sem fylgst hafa með fjallinu leggja lítinn trúnað á þessa sögu, og segja að miðað við hve miklar jarðhræringarnar í fjallinu hafa verið ætti það nú þegar að vera byrjað að gjósa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert