Íranar birta eigið myndband

Einn af írönsku hraðbátunum sést hér á mynd sem bandarískir …
Einn af írönsku hraðbátunum sést hér á mynd sem bandarískir sjóliðar tóku sl. sunnudag á Hormuz-sundi. AP

Íranska ríkissjónvarpið sýndi í dag myndband sem íranskir hermenn tóku þegar það skarst í odda milli þeirra og bandaríska sjóhersins á Hormuz-sundi sl. helgi. Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur þegar birt myndband sem bandarískir sjóliðar af sama atviki.

Myndbandið, sem Íranarnir tóku, var birt á ensku fréttastöðinni Press-TV. Það er um fjögurra mínútna langt og sýnir íranskan yfirmann á hraðbát setja sig í samband við sjóherinn í gegnum talstöð. Yfirmaðurinn, sem talar góða ensku, biður þá um að gefa skýringar á hvaða skip séu á ferð og spyr um tilgang fararinnar.

Bandaríski sjóherinn svarar að hann sigli á alþjóðlegu hafsvæði.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið birti mynd- og hljóðupptökur af atvikinu á þriðjudag. Að sögn ráðuneytisins staðfesta upptökurnar að íranskir hraðbátar hafi siglt í kringum herskipin á Hormuz-sundi sl. sunnudag og hótað í gegnum talstöð að skipin yrðu sprengd í loft upp.   

Mikil spenna hefur ríkt í samskiptum landanna vegna kjarnorkuáætlunar Írana og hefur umrætt atvik aukið enn frekar á spennuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert