Snjór fellur í Bagdad í fyrsta skipti í manna minnum

Snjór féll í Bagdad í morgun í fyrsta skipti í …
Snjór féll í Bagdad í morgun í fyrsta skipti í manna minnum, og gladdi íbúa borgarinnar. MAHMOUD RAOUF MAHMOUD

Eftir fimm ár af stríði hefur reynt mikið á íbúa Bagdad og telja margir sig sennilega hafa séð allt.  Við fyrsta bænakall vöknuðu íbúar borgarinnar hins vegar við nýja upplifun er snjór féll yfir Bagdad í fyrsta skipti í manna minnum. 

Þó snjókornin hafi fljótlega bráðnað fylltust íbúar borgarinnar gleðitilfinningu sem ekki sést oft í eyðimerkurborginni þar sem trúarmorð og sprengingar eru hluti af daglegu lífi. 

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég sé snjó.  Þegar ég var lítill sagði pabbi minn mér frá snjó,” sagði 63 ára íbúi í Bagdad í samtali við fréttaritara AP

Hitastig var við frostmark í morgun sem er óvenjulegt og var flugvellinum í Bagdad lokað vegna lélegs skyggnis. 

Algengt er að það snjói í fjöllunum í norður Írak en íbúar Bagdad mundu ekki eftir að hafa séð borgina hvítlagða af snjó og sögðust sumir bara hafa séð snjó í bíómyndum.  Aðrir sögðu frá því að þeir hafi hringt eldsnemma í vini sína til þess að fara út og skoða þetta undarlega fyrirbæri. 

Hvítt var yfir borginni í um tvo tíma en lítið var um tilkynningar af ofbeldi fram að hádegi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert