Tesco hvetur til hækkunar á áfengi

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Tesco, stærsta stórmarkaðakeðja Bretlands, ætlar að hvetja bresk stjórnvöld til að koma á nýjum lögum sem banna sölu á ódýru áfengi. Áhyggjur af áfengistengdum glæpum og ofbeldi valda því að keðjan hefur ákveðið að grípa til sinna ráða.

Breskir stórmarkaðir hafa verið gagnrýndir fyrir að selja mjög ódýrt áfengi, sem talið er ýta undir neyslu. Sumir stórmarkaðir hafa selt áfengi undir kostnaðarverði vegna samkeppni og var fyrir skömmu fjallað um það að Tesco seldi bjórdósir á lægra verði en vatn á flösku.

Talsmenn Tesco segjast viljugir til að snúa við þróuninni en samkeppnislög í landinu meina það að stórmarkaðirnir taki höndum saman um að hækka verð.

Tesco óttast að ef fyrirtækið hækki verð einhliða muni neytendur einfaldlega snúa sér annað.

Mögulegt er þó að fyrirtækið sjái sér hag í því að hafa frumkvæði að slíkum breytingum þar sem getgátur eru um að Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands muni kynna til sögunnar hækkanir á áfengissköttum í mars.

Fyrirtækið hefur einnig sagst reiðubúið til að grípa til annarra aðgerða til að sporna við slæmum afleiðingum mikillar áfengisneyslu landsmanna.

Keðjan segir t.a.m. ekki ætla að sækja um áfengissöluleyfi á svæðum þar sem vandræði skapast reglulega vegna drykkju. Þá hefur fyrirtækið heitið því að auglýsa ekki áfengi nærri skólum og að sjötta hver áfengisauglýsing frá fyrirtækinu muni hvetja fólk til að drekka áfengi á ábyrgan hátt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert