Misþyrmdu fatlaðri stúlku í 6 klukkustundir

Tveir unglingar, piltur og stúlka réðust inn á heimili í Bandaríkjunum á föstudaginn og misþyrmdu fatlaðri átján ára gamalli stúlku í sex klukkustundir. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglustjóranum í Butler sýslu földu ungmennin sig í húsinu nóttina áður og réðust til atlögu eftir að móðir stúlkunnar fór til vinnu um morguninn.

Unglingarnir bundu stúlkuna, börðu hana sundur og saman, rökuðu af henni hárið og helltu yfir hana vatni áður en þau neyddu hana til þess að ganga berfætt í snjónum fyrir utan húsið. Þau virtu að vettugi bænir stúlkunnar um að hlífa höfði hennar þar sem hún hefur nýverið farið í uppskurð á höfði. 

Segir lögreglustjórinn að þetta sé einn versti glæpur sem hann hafi upplifað á ferlinum og líkir glæpamönnunum við dýr en eini tilgangurinn hafi verið að skemmta sér. 

Ungmennin, Cheyenne Blanton, 17 ára, og Joseph Nagle, 16 ára, voru dregin fyrir unglingadómstól í gær þar sem þau eru ákærð fyrir innbrot, mannrán, tilefnislausa árás og skemmdarverk. Þeim er gert að vera í gæslu þar til dómur fellur í máli þeirra.

Lögreglan krefst þess að réttað verði yfir þeim sem fullorðnum sem þýðir að þau eiga yfir höfði sér allt að 75 ára fangelsi eða lífstíðarfangelsi verði þau fundin sek.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert