Flensufaraldur vekur ugg

Flensan í Hong Kong vekur upp minningar um SARS.
Flensan í Hong Kong vekur upp minningar um SARS. mbl.is/Sverrir

Heilbrigðisyfirvöld í Hong Kong reyndu að draga úr ótta almennings vegna flensufaraldurs sem brotist hefur út í borginni og dregið fjögur börn til dauða. Í kjölfar flensunnar var gefin út tilskipun í gær um að öllum leik- og forskólum borgarinnar skyldi lokað.

Flensunnar hefur gætt í rúmlega tuttugu leik- og forskólum í borginni. „Þetta var erfið ákvörðun en við höfum áttað okkur á því að fjöldi tilfella er að aukast," sagði heilbrigðisráðherrann York Chow á blaðamannafundi í morgun.
Hann sagði að þessar aðgerðir væru kannski fremur harkalegar en vonaðist til að þær myndu róa foreldra sem hefðu áhyggjur af heilsu barna sinna.

Tilkynningin um lokunina kom seint í gær og því mættu margir foreldrar með börn sín í eftirdragi á leikskólana í morgun.

Flensufaraldurinn er skæður og hefur kallað fram minningar um SARS sem er skæður öndunarfærasjúkdómur sem herjaði á Hong Kong fyrir fimm árum en þá létust nærri 300 manns.

Börnin sem hafa látist undanfarið greindust með Inflúensu A eða H1N1 vírus sem hefur greinst í 184 sjúklingum en Chow sagði að ekkert benti til þess að þessi veira væri skæðari en aðrar flensur sem geisa með reglulegu millibili.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert