Árásarmaður í Danmörku ber við sjálfsvörn

Karlmaður sem varð fyrrum eiginkonu sinni og föður hennar að bana í Hørsholm í Danmörku á laugardag heldur því fram að hann hafi framið verknaðinn eftir að á hann var ráðist.  Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Maðurinn sagði er hann kom fyrir dómara í morgun að hann hafi hitt fólkið af tilviljun í strætó en ekki farið út á sama stað. Þau hafi síðan aftur hist í járnvöruverslun þar sem hann hafi ætlað að kaupa naglaskæri.  

Segist hann hafa sýnt kurteisi og einungis viljað ræða við dætur sínar tvær er hann rakst á þær í járnvöruversluninni. Tengdafaðir hans fyrrverandi hafi hins vegar dregið upp hníf og eiginkonan fyrrverandi ógnað sér með honum. Þá segist hann hafa óttast um líf sitt þar sem konan hafi verið fyrrum karateþjálfari.

Maðurinn, sem stakk hvort fórnarlamb sitt ítrekað, segist einungis hafa ætlað að hræða þau og að hann hafi alls ekki haft í hyggju að skaða þau alvarlega hvað þá að drepa þau.  

Flemming Poulsen, talsmaður rannsóknarlögreglunnar á norðanverðu Sjálandi, segir ekkert benda til annars en að rétt sé að fólkið hafi hist af hreinni tilviljun. Hann segir frásögn mannsins hins vegar ótrúverðuga enda virðist hann hafa ráðist á konuna þar sem hún reyndi að fela sig á bak við afgreiðsluborð. Þá segir hann ekkert benda til þess að tengdafaðir mannsins hafi verið vopnaður.

Konan flutti frá manninum í kvennaathvarf í janúar og hefur hann a.m.k. einu sinni reynt að þröngva sér þar inn. Fólki er allt innflytjendur frá Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert