Sjá má á gervihnattamyndum, að stór svæði á suðvesturhluta Búrma eru undir vatni eftir að fellibylurinn Nargis fór þar yfir um helgina. Stjórnvöld segja að 15 þúsund manns hið minnsta hafi látið lífið og að 30 þúsund manna sé saknað. Þá hafa milljónir misst heimili sín.
Gervihnattamyndir, sem bandaríska geimferðastofnunin NASA hefur birt, sýna að allt strandsvæðið er undir vatni og að landbúnaðarhéröð við ósasvæðin, aðal hrísgrjónaræktarsvæði landsins, sömuleiðis.
Myndir frá Rangoon, fyrrum höfuðborg Búrma og stærstu borg landsins, sýna að þar urðu miklar skemmdir en um 6 milljónir manna búa í borginni. Þá er borgin umflotin vatni.
Stjórnvöld segja að yfir 10 þúsund manns hafi látið lífið í borginni Bogalay og að 95% húsa þar séu ónýt. Önnur borg, Bago, virðist einnig hafa orðið illa úti vegna flóða. Þar búa um 220 þúsund manns.
Erlendir hjálparstarfsmenn segja að ástandið á svæðunum sé skelfilegt og lík liggi eins og hráviði á hrísgrjónaökrum. Þá hafi fólk, sem lifði óveðrið af, verið matar- og vatnslaust í fjóra sólarhringa.
Sameinuðu þjóðirnar segja, að mikið og erfitt verk bíði hjálparsamtaka sem reyna að koma gögnum til fólks á flóðasvæðunum. Óttast er að sjúkdómar breiðist þar út innan skamms.