19,5 milljarðar króna til höfuðs Khalil Ibrahim

Frá Omdurman í gær
Frá Omdurman í gær AP

Stjórnvöld í Súdan hafa tvöfaldað þá upphæð sem sett er til höfuðs leiðtoga uppreisnarmanna í Darfúr og leiddi aðgerðir uppreisnarmanna í úthverfi höfuðborgar  Súdan, Khartoum, í síðustu viku. Í ríkissjónvarpi Súdans kemur fram að stjórnvöld greiði hverjum þeim sem veitt geti upplýsingar sem leiða til handtöku Khalil Ibrahim 500 milljónir súdanskra punda, 19,5 milljarða króna, sem er tíu sinnum hærri fjárhæð en stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa sett til höfuðs Osama bin Laden, leiðtoga al-Qaida.

Ibrahim hefur verið á flótta frá því á laugardag er uppreisnarmenn reyndu að ná Khartoum á sitt vald. Stjórnvöld í Súdan hafa slitið stjórnmálasambandi við nágrannaríkið Tsjad þar sem þau segja að öryggissveitir lögreglu hafi upplýsingar um að stjórnvöld í Tsjad hafi verið í beinum samskiptum við Ibrahim. Samkvæmt þeim á Ibrahim að hafa beðið stjórnvöld í Tsjad um að senda þyrlu eftir honum. Er talið að Ibrahim haldi til í eyðimörkinni norðaustur af Darfúr-héraði.

Á sunnudag birti ríkissjónvarpið í Súdan í fyrsta skipti mynd af Khalil Ibrahim, leiðtogi Réttlætis og jafnréttis hreyfingarinnar, og báðu almenning um að láta strax vita ef til hans sæist.

Í símaviðtali við AP fréttastofuna í gær sagði Ibrahim að hann væri í hættu en hann væri enn meðal liðsmanna sinna í tvíburaborg Khartoum, Omdurman. Sagðist Ibrahim að baráttunni gegn stjórnvöldum í Súdan væri hvergi nærri lokið. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert