Íranar staðfesta að bahá'íar hafi verið handteknir

Írönsk stjórnvöld staðfestu í dag, að félagar í trúarsöfnuði bahá'ía hefðu verið handteknir í landinu en trúarbrögð baháa eru bönnuð í Íran. Sagði talsmaður írönsku ríkisstjórnarinnar í morgun, að bahá'íar hefðu unnið gegn hagsmunum Írana.

„Þetta er hópur, sem hefur unnið gegn hagsmunum landsins og er með tengsl við útlendinga, einkum zíonista (Ísraelslmenn)," sagði Gholam Hossein Elham, talsmaður Íransstjórnar, við fréttamenn.

Maxime Bernier, utanríkisráðherra Kanada, lýsti í síðustu vikum áhyggjum vegna frétta af handtöku sex bahá'ía og hvatti til þess að þeir yrðu látnir lausir. Sakaði Bernier Írana um að handtaka einstaklinga eingöngu vegna trúarskoðana þeirra.

Íranar sögðust í janúar hafa dæmt 54 bahá'ía fyrir áróður gegn stjórnvöldum. Fjórir voru dæmdir í 3-4 ára fangelsi en aðrir í árs skilorðsbundið fangelsi.

Bahá'íatrú varð til í Íran á 19. öld en þarlend stjórnvöld viðurkenna hana ekki og telja þá sem aðhyllast þessi trúarbrögð vera trúvillinga. Bahá'íar líta á Bahaullah, sem fæddist 1817, sem síðasta spámanninn sem Guð sendi til jarðar, en múslimar telja að Múhameð sé síðasti spámaðurinn.

Bahaullah var bannfærður í Íran og sendur í útlegð þar sem hann var í 40 ár. Hann lést árið 1892 og var grafinn í landinu helga, skammt frá þeim stað þar sem ísraelska hafnarborgin Haifa stendur nú. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert