Náðaður 86 árum eftir aftöku

Maður að nafni Colin Campbell Ross hefur hlotið sakaruppgjöf frá áströlskum ríkisstjóra 86 árum eftir að hann var hengdur. Hann var fundinn sekur um nauðgun og morð á ungri stúlku árið 1922. Hann var 28 ára gamall þegar aftakan fór fram í Viktoríu ríki í Ástralíu.

Það voru afkomendur Ross og ættingjar 12 ára gamla fórnarlambins, Alma Tirtschke, sem fóru fram á náðunina.

Ross rak krá í Melbourne í Ástralíu á umræddum tíma. Ákærendur sökuðu hann um að gefa stúlku að nafni Alma Tirtschke áfengi áður en hann nauðgaði henni og kyrkti á gamlárskvöld árið 1921. Einu sönnunargögnin voru hárþræðir sem fundust í teppi en þeir voru taldir koma frá Tirtschke.

Þrátt fyrir að vitni komu fram og veittu Ross fjarvistarsönnun var hann fundinn sekur. Hann var hengdur fjórum mánuðum seinna.

Maður að nafni Kevin Morgan skrifaði bók um atvikið, Gun Alley (Murder, Lies and the Failure of Justice). Hann sá til þess að ný rannsókn var framkvæmd á hárþráðunum sem fundust í teppinu og í ljós kom að þeir tilheyrðu ekki Tirtschke. Einnig veitti hann frekari upplýsingar um vitnið sem saksóknaraembættið tefldi fram.

Ríkisstjórinn í Viktoríu, Rob Hulls, sagði í tilkynningu að réttlættinu hefði ekki verið fullnægt í þessu tilfelli. „Náðun er ekki það sama og að lýsa yfir sakleysi. Í þessu tilfelli er ekki hægt að rétta aftur,“ sagði hann.

Frænka Tirtschke, Bettye Arthur, var ánægð með úrksurðinn. „Það er sorglegt að sá seki skyldi sleppa og saklaus maður var tekinn af lífi,“ sagði hún, að því er fram kemur á fréttavef CNN.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert