Morðalda í Noregi

Það sem af er ágúst hafa tíu morð verið framin í Noregi, eða jafn mörg og framin voru á sex mánaða tímabili í fyrra. Í síðasta mánuði greindi dómsmálaráðherra landsins, Knut Storberget, frá því að morðtíðni á fyrri helmingi ársins hefði minnkað miðað við árið í fyrra. Morðaldan í ágúst hefur gert það að engu.

Frá þessu greinir fréttavefur Aftenposten.

Fullorðinn karlmaður og lítill drengur fundust látnir á heimili við Mjösavatn í dag, og að sögn lögreglu virðist sem þar hafi verið um að ræða morð og sjálfsmorð er rekja megi til fjölskylduharmleiks.

Enn stendur rannsókn á morði á 46 ára norsk-sómölskum manni sem fannst við bíl sinn á laugardaginn, en maðurinn hafði verið skotinn fimm sinnum.

Daginn áður fundust hjón myrt á heimili sínu, og er sonur þeirra grunaður um verknaðinn.

Um miðjan mánuðinn fannst Ítali myrtur í íbúð í Ósló. Hafði hann verið stunginn til bana. Um svipað leyti voru tvö börn og kona myrt í Grefsenhverfi í Ósló og er maður konunnar grunaður um að hafa orðið þeim öllum að bana.

Fyrr í mánuðinum voru tveir eldri menn myrtir í borginni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert