Palin fékk dagpeninga fyrir að vera heima

Sarah Palin sætir nú gaumgæfilegri skoðun bandarískra fjölmiðla.
Sarah Palin sætir nú gaumgæfilegri skoðun bandarískra fjölmiðla. Reuters

Sarah Palin, varaforsetaefni bandaríska Repúblikanaflokksins, lét ríkissjóð Alaska greiða sér dagpeninga í 312 daga á síðasta ári sem hún dvaldi á heimili sínu í bænum Wasilla, 965 km frá Juneau, höfuðborg Alaska. Þetta kom fram við athugun blaðsins Washington Post á ferðareikningum, sem Palin hefur lagt fram.

Palin er ríkisstjóri í Alaska. Hún flutti til Juneau á síðasta ári en dvelur oft í Wasilla og vinnur gjarnan á skrifstofu í Anchorage í 72 km fjarlægð. Embættismenn hjá Alaskaríki sagði að dagpeningareikningarnir, sem hljóðuðu upp á samtals 17 þúsund dali á 19 mánuðum, jafnvirði rúmlega 1,5 milljóna króna, hafi verið samþykktir vegna þess hve langt er á milli Juneau og Wasilla.

Þá kemur einnig fram í umfjöllun Washington Post, að Palin lagði fram reikninga upp á 43.490 dali, nærri 3,9 milljónir króna, vegna ferða eiginmanns hennar og barna.

Bandarískir fjölmiðlar hafa grandskoðað fjármál og stjórnarferil Palin vegna þess að hún er kynnt fyrir þjóðinni sem baráttumaður fyrir umbótum og bættri meðferð skattpeninga. Hún hafi m.a. boðið einkaþotu ríkisstjóraembættis Alaska til sölu á eBay og noti ekki einkabílstjóra.

Washington Post segir, að Todd, eiginmaður Palin, og dætur þeirra hafi fengið greiddar margar ferðir milli Wasilla og Juneau og einnig fyrir margar aðrar ferðir, sem flokkaðar eru sem opinberar. Aðstoðarmenn Palin segja, að ferðalög innan Alaska séu hluti af starfsskyldum ríkisstjórans og fjölskyldu hans.

Reglur um greiðslur vegna ferða barna ríkisstjórans eru hins vegar ekki ljósar. Fjármálastjóri Alaska sagði við Washington Post að hið opinbera greiddi ferðir allra þeirra, sem væru í opinberum erindagerðum „en ég get ekki ímyndað mér að börn hafi slíkar skyldur."

Palin tók Bristol dóttur sína með sér til New York í október á síðasta ári þar sem hún sótti ráðstefnu og fundi og heimsótti stofnanir. Hótelkostnaður var yfir 700 dalir á nóttu.

Ferðakostnaður Palins er þó aðeins lítið brot af því sem fyrirrennari hennar í embætti, Frank Murkowski, eyddi í ferðir. Hann lagði m.a. fram reikninga upp á 463 þúsund dali, jafnvirði 41 milljóna, vegna flugferða árið 2006. Reikningar Palins hljóðuðu upp á 93 þúsund dali á síðsta ári, jafnvirði 8,3 milljóna.

Tracey Schmitt, talskona Palin, sagði í dag að ætlast væri til að ríkisstjórinn væri á ferð og flugi. Slíkt væri hluti af starfi hennar og því væri eðlilegt að hún fengi ferðakostnaðinn greiddan.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert