Friðardagurinn haldinn í Afganistan

Reuters

Sameinuðu Þjóðirnar segja að byssur hafi hljóðnað víðs vegar í Afganistan í dag en nú er haldið upp á Alþjóðlegan friðardag. Bandaríkin, NATO, afganska stjórnin og Talibanar lofuðu að stöðva hernað.

Talsmaður Sameinuðu þjóðanna sagði að tugir þúsunda erlendra og afganskra hermanna sem og vígamenn Talibana hefðu látið vopnin síga vegna friðardagsins en hann er stærsti friðarviðburður sem haldinn hefur verið í Afganistan.

Flestir embættismenn í landinu hafa ekki tilkynnt um nein átök og margir lofuðu friðardaginn.

„Í dag er friðardagur. Hermennirnir hvílast,“ sagði Abdul Jalal Jalal, lögreglustjóri í Kunar héraði sem liggur að Pakistan.

Aðspurður hvort tilkynnt hefði verið um ofbeldi í dag sagði hann að ekkert hefði verið af slíku.

„Það er ótrúlegt en svo virðist vera sem leiðtogar Talibana hafi sent út email þar sem segir að þeir ætli sér að heiðra daginn ef við gerum það og við gerum það svo sannarlega,“ sagði hann. „Þetta er frábær dagur til að sýna Afgönum nákvæmlega hvað friður er og hvernig daglegt líf gæti verið ef þeir spörkuðu bara vondu köllunum út.“

Dagurinn var ekki algerlega án ofbeldis. Vígamenn Talibana réðust á öryggisverði sem vernduðu vegavinnumenn í Ghazni héraði og létu tveir verðir lífið, að sögn talsmanns stjórnarinnar.

Í ljósi þess að árið 2008 er hið versta hvað ofbeldi varðar í Afganistan frá því að Bandaríkin réðust inn í landið 2001 má þó segja að friðardagurinn hafi slegið í gegn.

Þetta er í 26. sinn sem Alþjóðlegi friðardagurinn er haldinn af Sameinuðu þjóðunum og var sérstaklega mikið átak í gangi í Afganistan til þess að fá fólk til þess að heiðra hann.

Alþjóðlegar hersveitir munu ekki vera með neinar árásir frá miðnætti til miðnættis í dag og forseti Afganistan sagði að hið sama myndi gilda um stjórnarherinn.

Afganir héldu upp á daginn með margvíslegum hætti, skrúðgöngum, íþróttakeppnum og fleiru.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert