Dregið úr olíuframleiðslu

OPEC, samtök olíuframleiðsluríkja, hafa ákveðið að draga úr olíuframleiðslu vegna gríðarlegs verðfalls. Framleiðslan verður frá næstu mánuðum skorin niður um 1,5 milljónir tunna á dag. Þetta var ákveðið á fundi olíumálaráðherra OPEC í Vínarborg í dag.

Þrátt fyrir þetta hefur olíuverð haldið áfram að lækka á heimsmarkaði í dag. Verð á Brent Norðursjávarolíu var í morgun 61,08 dalir tunnan og hefur ekki verið lægra frá því í mars í fyrra. Verð á olíu á markaði í New York var 63,05 dalir og hefur ekki verið lægra frá því í maí árið 2007.  

Eftirspurn eftir olíu hefur dregist verulega saman í hinum vestræna heimi í kjölfar hamfaranna á fjármálamörkuðum. Hráolíuverð hefur ekki verið lægra í rúmt ár og er nú helmingi lægra en það var þegar verðið var sem hæst í sumar.

AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert