Árásin í Sýrlandi felldi al-Qaida-foringja

Kirstur hinna föllnu bornar til grafar í Sukkariyeh.
Kirstur hinna föllnu bornar til grafar í Sukkariyeh. Reuters

Bandarísk yfirvöld hafa skýrt frá því að það hafi verið háttsettur félagi í al-Qaida hryðjuverkasamtökunum sem felldur var í Sýrlandi rétt við landmærin að Írak. 

Ónafngreindur heimildamaður innan bandaríska stjórnkerfisins segir að maðurinn, sem gekk undir nafninu Abu Ghadiyah, hafi verið leiðtogi helstu fylkingarinnar sem annaðist flutning á erlendum stríðsmönnum tengdum al-Qaida inn í Írak. Hann hafi því verið skotmarkið í þyrluárás Bandaríkjamanna á byggð í Sukkaryeh í Sýrlandi á sunnudag.

Síðasta vor fengu bandaríski leyniþjónustuyfirvöld svipaðar ábendingar um að Abu Ghadiyah væri að undirbúa árás innan Írak. Upplýsingarnar þá voru ekki nógu nákvæmar til að unnt væri að fylgja þeim eftir en í kjölfarið voru 11 íraskir lögreglumenn felldir. Heimildarmaður AP-fréttastofunnar segir að Abu Ghadiyah hafi þá persónulega farið fyrir árásarhópnum.

Sagt er að samkvæmt ábendingunni nú hafi verið fullyrt að árásin væri yfirvofandi og að þessu sinni var unnt að ákvarða staðsetninguna. Heimildarmenn AP ræddu við fréttastofuna undir nafnleynd þar sem um væri að ræða viðkvæm öryggismál.

Abu Ghadiyah var dulnefni Badran Turki Al Mazidih. Árásinn á hann var tímasett með tilliti til þess að hún yrði á hefðbundnum hvíldartíma síðdegis og árás á jörðu niðri hefði verið valin fremur en eldflaugaárás til að fyrirbyggja mannfall óbreyttra borgara.

Ber ekki saman um mannfall

Sýrlendingar hafa sagt að fjórar þyrlur hafi ráðist á byggingu og fellt 8 manns, þar á meðal fjögur börn. AP-fréttastofan hefur hins vegar eftir yfirmanni í hernum með beina vitneskju um árásina á sunnudag að þar hafi hvorki börn né konur verið meðal fallina. Hermenn hafi lagt sig í beina hættu til að konur og börn yrðu ekki fyrir árásinni.

Árásin í Sýrlandi nú kemur í kjölfar mikilla umræðna innan leyniþjónustunnar CIA, sérsveita og hernaðaryfirvalda í Írak um hvernig eigi að fást við meintan stuðning Sýrlendinga við erlenda stríðsmenn í Írak. Þessi aðgerð sé einungis hluti af víðtækari baráttu til að berjast gegn al-Qaida ekki einungis innan Írak heldur utan landamæranna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert