Castro með olíusamning

Luiz Inacio Lula da Silva og Fidel Castro á góðri …
Luiz Inacio Lula da Silva og Fidel Castro á góðri stundu í janúarmánuði. Raul, bróðir Castro, hefur undirritað olíusamning við Lula. Reuters

Raul Castro, forseti Kúbu, og Luiz Inacio Lula da Silva Brasilíuforseti hafa undirritað samning um samstarf um olíuvinnslu á kúbverska landgrunninu. Vonir eru bundnar við að þar leynist yfir 20 milljarðar tunna af olíu.

Samningurinn, sem er á milli brasilíska olíurisans Petrobras og kúbverska ríkisfélagsins Cubapetroleo, nær til olíukönnunar á hafti úti og er hluti af þeirri stefnu Kúbverja að verða sjálfum sér nægir um olíu.

Reynist sú spá rétt að á kúbverska landgrunninu sé að finna 21 milljarð tunna af olíu er um gífurleg verðmæti að ræða. Miðað við að olíutunnan fari á um 80 tali er verðmætið hátt í 190.000 milljarðar króna á núverandi gengi. 

„Ef það eru líkur á olíufundi á Kúbu, þá hafðu ekki áhyggjur Raul, það má sækja hana niður á 500 metra dýpi, að 1.000 metrum, að 3.000 metrum, að 7.000 metrum, við munum leita að henni, finna hana og umbreyta í orku,“ sagði Lula Brasilíuforseti kumpánalega við gestgjafa sinn í gær.

Olíuvinnslan gæti umbylt efnahag Kúbu, sem reiðir sig mjög á innflutning olíu, einkum frá Venesúela. Njóta Castrobræður, Fidel og Raul, þess að þeir eiga hauk í horni þar sem fer Hugo Chavez, forseti Venesúela.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert