Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, spáði því í dag að Hillary Clinton, sem tekur við embættinu að óbreyttu í janúar, muni vinna gott starf í ráðuneytinu vegna þess að hún trúi á bandarísk gildi og elski land sitt.
Rice sagði, að Barack Obama, væntanlegur Bandaríkjaforseti, hafi valið vel þegar hann tilnefndi Clinton í embætti utanríkisráðherra.
„Hún er frábær," sagði Rice í samtali við sjónvarpsstöðina ABC. „Ég hef þekkt hana lengi, allt frá því hún kom með dóttur sína í Stanfordháskóla þegar ég var námsstjóri þar. Ég held að hún verði frábær ráðherra."