Fordæmir árás á bílalest SÞ

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, fordæmdi í kvöld árás, sem Ísraelsmenn gerðu á bílalest SÞ á Gasasvæðinu í gær. Að minnsta kosti einn maður lést í árásinni. Alþjóða Rauði krossinn sakar Ísraelsmenn um brot á alþjóðlegum mannúðarlögum. 

Í yfirlýsingu talsmanns Bans segir, að SÞ ræði við ísraelsk stjórnvöld um að fram fari ýtarleg rannsókn á þessu máli og öðrum atvikum og brýnt sé að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. 

„Framkvæmdastjórinn hvetur enn til þess að gert verði tafarlaust vopnahlé svo hægt sé að koma við hjálparstarfi án hindrunar gera hjálparstarfsmönnum kleift að ná til særðra og nauðstaddra án áhættu. 

Alþjóða Rauði krossinn sagði í dag, að ísraelskir hermenn hefði reynt að neyða björgunarmenn til að yfirgefa svæðið þegar þeir komu í Zeitun hverfið í Gasaborg í gær, fjórum dögum eftir að óskað hafði verið leyfis Ísraelsmanna til að fara þangað. 

Samtökin segja í óvenjulega harðorðri yfirlýsingu, að sú töf, sem varð á afgreiðslu leyfisins, sé óviðunandi.

Í yfirlýsingu Alþjóða Rauða krossins segir, að björgunarfólkið, þar á meðal félagar í Rauða hálfmánanum í Palestínu, hafi fundið fjögur veikburða börn sem héldu í lík móður sinnar. Einn karlmaður hefði einnig fundist á lífi en of veikburða til að geta staðið upp. Alls fundust 12 lík liggjandi á dýnum. 

Þá fundu björgunarmennirnir 15 manns á lífi í einu húsi, þar af nokkra særða. 

Í öðru húsi fundust þrjú lík. Rauði krossinn segir, að ísraelskir hermenn, sem voru í varðstöð í um 80 metra fjarlægð frá húsinu, hafi skipað björgunarfólkinu að yfirgefa svæðið en því var neitað. 

„Þessi atburður er sannarlega áfall fyrir okkur sem vinnum að því að bjarga lífi almennra borgara,” segir Pierre Wettach, yfirmaður skrifstofu Alþjóða Raða krossins í Ísrael og á hernumdu svæðunum. „Ísraelsher hlýtur að hafa vitað hvernig málum var háttað en gerði ekkert til að aðstoða borgara sem særðust í árásunum. Einnig var reynt að koma í veg fyrir að aðstoð bærist frá Rauða krossinum og Rauða hálfmánanum.” 

Björgunarmennirnir fluttu 18 særða og 12 aðra frá svæðinu. Rauði krossinn segist hafa fengið upplýsingar um að fleiri særðir séu í húsarústum í Zeitunhverfi.

Ísraelsher hefur ekki brugðist við þessum yfirlýsingum sérstaklega en segist eiga nána samvinnu við alþjóðlegar hjálparstofnanir svo hægt sé að veita óbreyttum borgurum aðstoð.

Palestínskir bráðaliðar segja að yfir 700 manns hafi látið lífið í átökunum, þar af 220 börn, og yfir 3100 hafi særst. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert