Hvött til að aðstoða íbúa Gaza

Þrýst er á Hillary Clinton að koma íbúum Gaza til …
Þrýst er á Hillary Clinton að koma íbúum Gaza til aðstoðar. Reuters

Sextíu bandarískir þingmenn hafa sent Hillary Clinton utanríkisráðherra bréf þar sem hún er hvött til að beita sér fyrir neyðarframlögum til hjálparstofnunar á vegum Sameinuðu þjóðanna sem aðstoðar palestínska flóttamenn. Yrði ætlunin að nota féð til uppbyggingar á Gaza eftir árásir Ísraelsmanna á svæðinu nýverið.

Í bréfinu, sem sent var í gær, fimmtudag, lögðu þingmennirnir, sem eiga sæti í fulltrúadeildinni, einnig til að Ísraelsmenn heimiluðu flutning særðra út af Gaza-svæðinu og til læknismeðferðar í Ísrael, á Vesturbakkanum eða í Jórdaníu.

Fara þingmennirnir þess á leit við Clinton að hún komi þessum óskum beint til ísraelskra ráðamanna, en þeir lýsa yfir áhyggjum af skorti á lyfjum og matvælum á Gaza.

Vísa þingmennirnir einnig til þess að Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínumenn (UNRWA) áætli að það muni kosta 350 milljónir Bandaríkjadala að byggja upp þá innviði sem þarf til að veita Palestínumönnum brýnustu aðstoð á Gaza.

Takist ekki að bregðast við mikilli neyð á svæðinu í tíma kunni enn meiri hörmungar að vera handan við hornið. Því þrýsta þeir á Clinton að hún og starfsfólk hennar hafi gripið til aðgerða eigi síðar en 13. febrúar.

Mikilvægt sé að Bandaríkjastjórn leiði uppbyggingarstarfið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert