Krefjast sýknu fyrir skókastarann

Stytta var reist skókastaranum til heiðurs
Stytta var reist skókastaranum til heiðurs Reuters

Réttarhöld hófust í morgun yfir írakska blaðamanninum sem kastaði skóm sínum í George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Mikill öryggisviðbúnaður var við dómshúsið þar sem réttarhöldin fara fram. Lögfræðingar blaðamannsins byggja vörnina á því að um réttmæt mótmæli hafi verið að ræða.

Blaðamaðurinn Muntazer al-Zaidi öðlaðist heimsfrægð eftir að hann kastaði skóm sínum að George Bush 14. desember síðastliðinn en hitti ekki. Bush var þá í kveðjuheimsókn í Írak. Skókastinu var fagnað víða í ríkjum Araba.

Skókastarinn er sakaður um að hafa ráðist á erlendan þjóðarleiðtoga. Verði hann fundinn sekur getur hann átt von á allt að 15 ára fangelsi fyrir tiltækið.

Zaidi mætti í réttarsalinn klæddur í brúnleitan jakka, í svartri skyrtu og með írakska þjóðfánann um hálsinn eins og trefil. Miklar öryggisráðstafanir voru gerðar, leitað var í bílum og öll rafknúin tæki tekin af þeim sem komu í réttaraslinn.

Bróðir blaðamannsins sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að réttarhöldin væru „söguleg prófraun fyrir írakska réttarkerfið.“  Hann sagði að yrði bróðir hans látinn laus sýndi það að réttarkerfið væri sjálfstætt og bróðirinn yrði hetja. Verði hann dæmdur verði það hnekkir fyrir réttarkerfið.“

Verjendur sakborningsins ætla að fara fram á að sakir gegn blaðamanninum þrítuga verði felldar niður og hann látinn laus.

Réttarhöldin hófust í morgun klukkan 10.00 að staðartíma, klukkan 7.00 að íslenskum tíma. Þau fara fram við dómstól sem fæst við málefni hryðjuverkamanna og er staðsettur nálægt græna svæðinu í Bagdad þar sem ríkisstjórn Íraks og vestræn sendiráð hafa aðsetur.

Muntazer al-Zaidi
Muntazer al-Zaidi HO
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert