Assad gefur lítið fyrir áhrif stjórnarmyndunar í Ísrael

Bashar Assad Sýrlandsforseti hefur lýst því yfir að hann telji lítinn sem engan mun á hægri og vinstriflokkunum í Ísrael og að það muni því hafa lítil áhrif á hugsanlegar friðarviðræður Sýrlendinga og nýrrar stjórnar Ísraels hverjir sitji í henni. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

„Annar aðilinn er slæmur og hinn hræðilegur,” segir Assad í viðtali við blaðið Al Khaleej sem gefið er út í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.„Hægri flokkarnir eru hægrisinnaðir og vinstriflokkarnir eru hægrisinnaðir. Hægriflokkarnir drepa araba og vinstriflokkarnir drepa araba. Allar vonir um annað eru tilhæfulausar.”  

„Það verður kannski haldin friðarráðstefna með alls kyns formsatriðum en ef menn vilja frið þá þarf hann að vera víðtækur. Við getum boðið þeim upp á  val á illi víðtæks friðar og friðarsamkomulags sem hefur ekkert raunverulegt gildi,” segir Assad í viðtalinu við Al-Khaleej.

„Það er munur á friðarsamkomulagi annars vegar og friði hins vegar. Friðarsamkomulag er skjal sem menn undirrita. Því fylgja ekki endilega viðskipti eða eðlileg samskipti.”

Þá segir hann að Sýrlendingar muni ekki sætta sig við slíkt, enda búi hálf milljón palestínskra flóttamanna í landinu og ekki hafi verið fundin lausn varðandi stöðu þeirra.

Allt virðist nú stefna í myndun stjórnar undir forystu Benjmin Netanyahu, formanns Likudflokksins, í Ísrael. Talið er líklegt að Avigdor Lieberman, formaður hægriflokksins Yisrael Beiteinu, verði utanríkisráðherra þeirrar stjórnar og hafa fréttaskýrendur m.a. velt fyrir sér áhrifum þess á samskipti Ísraela og Sýrlendinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert