Tekur land frá þeim ríku og gefur hinum fátæku

Evo Morales.
Evo Morales. Reuters

Evo Morales forseti Bólivíu hefur afhent bændum úr röðum indíána þúsundir hektara lands sem teknir voru frá efnameiri bændum með mikil ræktarlönd. 

Hefur BBC eftir Morales að þessi flutningur muni hvetja landsmenn til að meta land sitt ofar hagnaði og að þannig megi binda endi á mannréttindabrot gagnvart indíánum. Sakaði hann fyrri landeigendur um að hafa farið illa með vinnufólk sitt og landið. 

Í janúar kusu Bólivíumenn um nýja stjórnarskrá sem ætlað er að bæta valdastöðu indíána, sem eru meirihluti landsmanna.

„Frá og með deginum í dag hefjumst við handa við að binda endi stórbýlarekstur í Bólivíu,“ sagði Morales. „Það á alltaf að sýna eignaréttinum tilhlýðilega virðingu, en við viljum að fólk sem að hefur engann áhuga á jafnrétti að það breyti hugsunarhætti sínum og leggi nú frekar áherslu á land umfram fjármuni.“

Þetta kom fram í ræðu sem Morales hélt fyrir hóp fólks af Guarani-indíánaþjóðflokkinum.  Sagði hann suma ekki vilja binda endi á stórbýlarekstur, en að þeir ættu engu að síður að „gefa sjálfviljugir land sitt til þeirra sem ekkert ættu“.

Morales er fyrsti forseti Bólivíu sem kemur úr röðum indíána og nýtur hann mikils stuðnings meðal fólks af indíánaættum.

Nýja stjórnarskráin veitir hinum 36 þjóðflokkum indíána sem í landinu búa mikil völd yfir ríkisstjórn landsins, dómskerfinu og eignarhaldi yfir landi. Þá heimilar hún einnig breytingar á ræktunarlandi með því að takmarka stærð þess landsvæðis sem hægt verður að selja í framtíðinni.

Stjórnarskrárbreytingarnar nutu samþykkis 61% kjósenda, en var hafnað á flatlendari svæðum Bólivíu þar sem hinir efnameiri búa. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert