Hyggst beita sér fyrir heimi án kjarnavopna

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði í ræðu í Strassborg í gær að hann hygðist beita sér fyrir heimi án kjarnavopna og kvaðst ætla að útlista það metnaðarfulla markmið í annarri ræðu í Prag um helgina.

„Jafnvel núna þegar kalda stríðinu er lokið gæti útbreiðsla kjarnavopna eða þjófnaður á efnum í slík vopn leitt til gereyðingar hvaða borgar sem er á jörðinni,“ sagði Obama þegar hann ávarpaði um 2.000 manns í Strassborg fyrir fund leiðtoga aðildarlanda Atlantshafsbandalagsins sem hófst í gærkvöldi.

Hættan meiri í Evrópu

Forsetinn fjallaði einnig um efnahagskreppuna í heiminum og nefndi Ísland sem dæmi um hversu háðar þjóðir heims væru hver annarri. „Það er ekki meira en mannsaldur síðan að erfitt hefði verið að ímynda sér að það að einhver skyldi ekki geta greitt fyrir hús á Flórída gæti stuðlað að hruni bankakerfisins á Íslandi,“ sagði Obama. „Það sem erfitt er að hugsa sér núna er að við skyldum ekki hafa gripið til ráðstafana fyrr til að móta framtíð okkar.“

Forsetinn kvaðst einnig vilja bæta samskipti Bandaríkjanna og evrópskra aðildarlanda NATO og viðurkenndi að stjórnvöld í Washington hefðu sýnt bandamönnum sínum hroka. Hann bætti þó við að togstreituna mætti einnig rekja til „lúmskrar“ andúðar á Bandaríkjunum og ósanngjarnrar gagnrýni af hálfu Evrópulanda.

Obama skoraði á Evrópuríkin að leggja meira af mörkum til baráttunnar gegn liðsmönnum al-Qaeda í Afganistan og sagði að Evrópulöndum stafaði jafnvel meiri hætta en Bandaríkjunum af hryðjuverkastarfsemi í heiminum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert