Aftaka í Íran vekur reiði

Delara Darabi.
Delara Darabi.

Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt harðlega, að 23 ára gömul írönsk kona, Delara Darabi, skyldi hafa verið tekin af lífi í Íran í gær vegna morðs, sem framið var þegar konan var 17 ára. 

Forseti dómsmálaráðs Írans hafði nýlega fyrirskipað að aftökunni skyldi frestað í 2 mánuði en lögmaður konunnar segir, að fangelsismálayfirvöld hafi hunsað það.  

Darabi  játaði upphaflega á sig morðið en breytti fljótlega framburðinum og sagðist hafa tekið á sig sök unnusta síns. Mál konunnar vakti heimsathygli þegar myndir, sem hún málaði og teiknaði í fangaklefa sínum, komust í fréttir.  

Fréttamaður BBC í Íran segir, að Delara hafi í gærmorgun hringt í foreldra sína og sagt að hún sæi snöruna, sem verið væri að undirbúa. „Mamma, þeir ætla að taka mig af lífi," sagði hún og þá þreif fangavörður af henni símann og sagði við móðurina: „Við ætlum að taka dóttur þína af lífi og við því er ekkert að gera."

Amnesty International segir, að Íranar hafi tekið 42 ungmenni af lífi frá árinu 1990 í trássi við alþjóðalög. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert