Mótmæla fundi með Dalai Lama í Danmörku

Dalai Lama og Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur.
Dalai Lama og Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur. Reuters

Kínversk stjórnvöld hafa mótmælt fundi Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, með Dalai Lama, andlegum leiðtoga Tíbeta, sem er í heimsókn í Danmörku.

Dalai Lama sagði að Evrópuferð sín til Danmerkur, Íslands, Frakklands og Póllands væri ekki pólitísk. Lars Løkke Rasmussen tók í sama streng og sagði að 45 mínútna fundur sinn með Dalai Lama hefði ekki verið pólitískur og ekki á vegum dönsku stjórnarinnar.

„Danski forsætisráðherrann Rasmussen og Møller utanríkisráðherra virtu að vettugi fjölda formlegra beiðna frá Kínverjum og áttu fund með Dalai Lama,“ sagði talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, Qin Gang. Hann sagði að ferð Dalai Lama til Danmerkur væri liður í baráttu hans fyrir sjálfstæði Tíbets.

„Fundirnir sköðuðu mikilvæga hagsmuni Kína og tengsl landsins við Danmörku,“ sagði talsmaðurinn og hvatti dönsku stjórnina til að bæta fyrir skaðann.

Kínversk stjórnvöld mótmæla alltaf fundum erlendra leiðtoga með Dalai Lama sem þeir saka um að berjast fyrir sjálfstæði Tíbets. Dalai Lama neitar þessari ásökun og segist vilja að Tíbet fái sjálfstjórnarréttindi.

Dalai Lama kemur í heimsókn til Íslands í næstu viku. Hann heldur almennan fyrirlestur í Laugardalshöllinni á þriðjudaginn kemur um gildismat og leiðir til lífshamingju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert