Dalai Lama kominn til Frakklands

Dalai Lama heilsar lögreglumanni á Charles de Gaulle flugvellinum í …
Dalai Lama heilsar lögreglumanni á Charles de Gaulle flugvellinum í París í morgun. Reuters

Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta, kom til Parísar í morgun þar sem hann verður útnefndur heiðursborgari. Hann hefur ítrekað, að heimsókn hans sé ekki í pólitískum tilgangi en kínversk stjórnvöld hafa gagnrýnt harðlega þau lönd, sem Dalai Lama hefur heimsótt í Evrópuferð sinni, þar á meðal Ísland. 

Ekki er langt síðan Frakkar og Kínverjar jöfnuðu ágreining sinn vegna þess, að Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, átti fund með Dalai Lama í desember. Kínversk stjórnvöld hafa þegar látið í sér heyra vegna heimsóknar Dalai Lama nú.  

Ekki eru fyrirhugaðir fundir með trúarleiðtoganum og frönskum ráðamönnum. Dalai Lama sagði, þegar hann kom til Parísar í morgun, að hann væri afar ánægður með að vera kominn til Frakklands og þá gæfist tækifæri til að hitta gamla vini úr röðum stjórnmálamanna, kaupsýslumanna, fræðimanna og venjulegs fólks.

Um atburði í Tíbet sagði hann: Frá því í mars 2008 hef ég haft það á tilfinningunni, að búið sé að kveða upp dauðadóm yfir rótgróinni þjóð,  menningu hennar og arfleifð."

Útlagastjórn Tíbeta á Indlandi fullyrðir að 203 Tíbetar hafi látið lífið og yfir 1000 særst í aðgerðum Kínverja vegna mótmælaaðgerða í Tíbet í mars í fyrra. Kínversk stjórnvöld segja hins vegar að aðeins 1 Tíbeti hafi látið lífið og óeirðaseggir hafi orðið 21 að bana.

Dalai Lama mun hitta Tíbeta, sem búa í Frakklandi og flytja fyrirlestur á íþróttaleikvangi.  

Hann hóf Evrópuferð sína í Danmörku sl. föstudag og hefur einnig heimsótt Ísland og Holland. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert