Fylgismenn Ahmadinejad fagna

Stuðningsmaður Ahmadinejad með íranska fánann á götum Teheran.
Stuðningsmaður Ahmadinejad með íranska fánann á götum Teheran. Reuters

Stuðningsmenn Mahmoud Ahmadinejad Íransforseta eru þegar byrjaðir að fagna sigri hans í forsetakosningunum í gær þótt endanleg úrslit liggi enn ekki fyrir. Þegar 61% atkvæða hafa verið talin hefur forsetinn tryggt sér um 66% atkvæða.

„Hvar eru græningjarnir - í músaholu?“ hrópuðu stuðningsmenn forsetans með vísan til þess að fylgismenn helsta keppinautar hans, hins hófsama Mir Hossein Mousavi, hafa borið græna borða að undanförnu.

Alls hafa verið talin um 21,2 milljónir atkvæða en samkvæmt gögnum kjörstjórnar hefur Ahmadinejad þegar tryggt sér rúmlega 14 milljónir atkvæða. 

Mousavi hefur hins vegar aðeins fengið 6,6 milljónir atkvæða eða um 31% greiddra atkvæða, að því er innanríkisráðuneytið greinir frá.

Hafði Mousavi fyrr í gær lýst yfir sigri en annað virðist ætla að koma á daginn.

Mohsen Rezai, fyrrverandi yfirmaður Íranska byltingarvarðarins, var langt á eftir Mousavi með aðeins um 1.87% atkvæða.

Vonbrigði fyrir hófsama Írana

Úrslitin eru vonbrigði fyrir hófsama Írana enda hefur forsetatíð Ahmadinejad einkennst af harðorðum yfirlýsingum í garð annarra ríkja sem hefur orðið til þess að einangra landið á alþjóðavettvangi.

Þá hefur hagstjórn hans þótt óábyrg og stjórn hans ekki þótt takast að fara vel með olíugróða síðustu ára.

Forsetinn hefur þannig verið iðinn við atkvæðakaup og má meðal annars rekja gott gengi hans nú til stuðnings dreifbýlisfólks sem kann vel að meta framlög stjórnarinnar í forsetatíð hans.

„Ég er ánægður með að frambjóðandinn minn vann - hann hjálpar hinum fátæku og gómar þjófanna,“ sagði samlokusalinn Kamra Mohammadi, stuðningsmaður forsetans.

Stuðningsmenn Ahmadinejads eru byrjaðir að fagna.
Stuðningsmenn Ahmadinejads eru byrjaðir að fagna. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert