Áframhaldandi mótmæli áformuð

Stjórnarandstæðingar í Íran áforma áframhaldandi mótmælaaðgerðir í dag í Teheran, höfuðborg landsins. Mótmælt hefur verið daglega frá því úrslit voru kynnt í forsetakosningum um síðustu helgi og er um að ræða mestu mótmælaöldu, sem farið hefur yfir Íran frá því klerkabyltingin var gerð þar í landi fyrir þremur áratugum.

Írönsk stjórnvöld hafa brugðist við með því að handtaka umbótasinna, takmarka starfsemi erlendra fréttamanna og kalla sendiherra erlendra ríkja og skamma þá fyrir ummæli ráðamanna um stöðuna í Íran. 

Stjórnvöld víða um heim hafa lýst áhyggjum af stöðunni í Íran. En Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagði í gærkvöldi að bandarísk stjórnvöld myndu ekki reyna að hafa afskipti af málum þar. Hann sagði, að í raun væri ekki svo mikill munur á stefnu forsetaframbjóðendanna tveggja, sem þar virðast takast á, Mahmoud Ahmadinejads, forseta Írans og  Mir Hossein Mousavis, sem tapaði í kosningunum á föstudag en hefur fullyrt að brögð hafi verið í tafli.

Stuðningsmenn Mousavis hafa boðað til nýs mótmælafundar í Teheran klukkan 13:30 að íslenskum tíma í dag, þrátt fyrir að bann liggi við slíkum fundum. Stuðningsmenn Ahmadinejads héldu einnig fund í gær. Hundruð þúsunda manna hafa tekið þátt í þessum samkomum undanfarna dag.

Þá voru einnig haldnir mótmælafundir í evrópskum borgum í gær til stuðnings Mousavis, þar á meðal í Aþenu, Kaupmannahöfn, Hamborg og Lundúnum.    

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert