„Ofbeldinu verður að linna"

Franco Frattini, utanríkisráðherra Ítalíu, er hann tók nýlega á móti …
Franco Frattini, utanríkisráðherra Ítalíu, er hann tók nýlega á móti Benjamin Netanyhau, forsætisráðherra Ísraels, í Róm. Reuters

Franco Frattini, utanríkisráðherra Ítalíu, kynnti fyrir stundu sameiginlega yfirlýsingu utanríkisráðherra G-8 ríkjanna sem nú sitja fund í Trieste á Ítalíu. Í yfirlýsingunni er þess m.a. krafist að ofbeldisverkum gegn mótmælendum í Íran verði tafarlaust hætt. 

„Við viljum að ofbeldi verði hætt þegar í stað. Við lýsum yfir samstöðu okkar með fórnarlömbunum,” segir í yfirlýsingunni. Þá eru yfirvöld í Teheran „sterklega hvött til að leita friðsamlegra lausna" í deilunni um úrslit forsetakosninganna þann 12. júní.   

Yfirvöld í Íran eru þó ekki gagnrýnd í yfirlýsingunni eða niðurstöður kosninganna dregnar í efa. „Við virðum fullkomlega sjálfstæði Íran. Við fordæmum þó það ofbeldi sem brotist hefur út í kjölfar kosninganna og leitt hefur til dauða óbreyttra borgara og hvetjum Írana til að virða grundvallarmannréttindi," segir þar.

Einnig segir að ráðamenn í ríkjunum, sem eiga fulltrúa á fundinum, séu sorgmæddir og í uppnámi vegna þeirra sem látið hafi lífið í átökunum í Íran. 

Þess er einnig krafist í lokayfirlýsingu fundarins að uppbyggingu gyðingabyggða Ísraela á Vesturbakkanum verði hætt „til að stuðla að uppbyggilegu andrúmslofti til friðarviðræðna".

Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ítalía, Japan, Kanada, Rússland og  Þýskaland mynda G-8 hóp stærstu iðnríkja heims.

Frattini skýrði fréttamönnum frá yfirlýsingunni.
Frattini skýrði fréttamönnum frá yfirlýsingunni. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert