Framtíðin í höndum Afríkumanna

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði framtíð Afríku í höndum Afríkumanna í ræðu sem hann flutti á þjóðþinginu í Ghana fyrir stundu. Tími væri kominn til að hverfa frá spillingu og styrkja rætur lýðræðisins í álfunni.

Forsetinn vísaði til spilltra einræðisherra sem sölsa undir sig þjóðareigur þegar hann sagði ekkert ríki getað skapað sér auð ef leiðtogar þess misnota sér stöðu sína á kostnað efnahagslífsins.

„Dómur sögunnar er skýr: Stjórnvöld sem virða vilja fólksins búa við meiri velsæld og stöðugleika og gengur betur en stjórnir sem gera það ekki,“ sagði forsetinn í ræðunni.

Þá hét forsetinn liðsinnis í baráttunni gegn sjúkdómum, auk þess sem hann vék að átökum í álfunni með þeim orðum að þau væru „myllusteinn um háls Afríku“.

Blökkukona sem Reuters-fréttastofan ræddi við kvaðst afar spennt yfir heimsókn forsetans. Hún væri eins og draumur sem hefði ræst.

Aðdáendur Obama bíða hans í Accra, höfuðborg Ghana.
Aðdáendur Obama bíða hans í Accra, höfuðborg Ghana. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert