Ólögleg vopnasala í Kaupmannahöfn

Búðareigandinn hefur neitað að gefa útskýringar á vopnasölunni.
Búðareigandinn hefur neitað að gefa útskýringar á vopnasölunni. AP

Lögreglan í Danmörku hefur ákært rúmlega fimmtugan karlmann fyrir ólöglega vopnasölu úr búð sinni í Kaupmannahöfn. Að auki átti hann stóran vopnalager í gámi í Humlebæk á Norður-Sjálandi.

Berlingske tidende segir að málið verði tekið fyrir í héraðsdómi í Kaupmannahöfn á mánudag. Lögreglan fylgdist með verslun mannsins yfir ákveðið tímabil og sá fjölda manns fara inn í búðina og kaupa sér vopn. Við rannsókn málsins nýtti lögreglan sér leynilögreglumann sem með dómarasamþykki villti á sér heimildir í versluninni og keypti ólögleg vopn af hinum ákærða. Lögreglumaðurinn mun bera vitni en undir nafnleynd.

Að sögn saksóknara í málinu hefur maðurinn ekki leyfi til að selja vopn, önnur en loftriffla og leikjabyssur en ekki þarf leyfi til að selja slíkt.

Margir kaupandanna hafa verið dæmdir fyrir ólögleg kaup á vopnum og nokkrir þeirra verða yfirheyrðir í málinu gegn búðareigandanum.

Verslunareigandinn er einnig ákærður fyrir að hafa ætlað að selja vopnin úr gámnum í Humlebæk en var voru um 20 ólíkar gerðir skotvopna auk yfir 3400 árásarhnífar.

Sjálfur hefur hinn ákærði neitað að útskýra mál sitt og saksóknarinn veit ekki enn hvort hann muni svara spurningum hans við réttarhöldin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert