Dómi yfir Suu Kyi frestað

Stuðningsmenn Aung San Suu Kyi krefjast lausnar hennar í Manila …
Stuðningsmenn Aung San Suu Kyi krefjast lausnar hennar í Manila höfuðborg Filippseyja. Reuters

Dómarar í Búrma hafa frestað uppkvaðningu dóms í máli Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í landinu, til 11. ágúst en til hafði staðið að dómur í málinu yrði kveðinn upp í dag. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Erlendir stjórnarerindrekar í landinu hafa það eftir dómurunum að þeir þurfi lengri tíma til að komast að niðurstöðu í málinu.

Suu Kyi er ákærð fyrir að brjóta gegn stofufangelsissamkomulagi með því að láta ekki yfirvöld vita af því er bandarískur maður synti óboðinn yfir stöðuvatn að heimili hennar í maí.

Hún getur átt allt að fimm ára fangelsisvist yfir höfði sér verði hún fundin sek.

Talið er að frestun úrskurðarins gefi til kynna að yfirvöld í landinu óttist viðbrögð alþjóðasamfélagsins við því verði Suu Kyi sakfelld.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert