Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, rauf óvænt þögn sína um mál Líbýumannsins Abdelbaset Ali al-Megrahi á blaðamannafundi með Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael s í dag. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Brown sagðist forviða yfir þeim viðtökum sem Megrahi hafi hlotið við heimkomuna til Líbýu og að framkoma yfirvalda í landinu hafi gengið fram af sér en Megrahi var fagnað sem þjóðhetju við heimkomuna. Hann ítrekaði hins vegar að ákvörðun um lausn Megrahi hafi verið tekin að skosku heimastjórninni og sagðist ekki hafa komið að henni með nokkrum hætti.
Brown hefur sætt harðri gagnrýni fyrir það undanfarna daga að neita að tjá sig um mál Megrahi og fyrr í dag sagði talsmaður hans að hann myndi ekki tjá sig um það á fundinum.
Megrahi var látinn laus úr fangelsi í Skotlandi í síðustu viku en hann hafði verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir hlut sinn í Lockerbie sprengjutilræðinu sem varð 270 manns að bana árið 1988.
Talsmaður Brown hefur ítrekað sagt að málið haf verið alfarið í höndum skosku heimastjórnarinnar og vísað á bug fullyrðingum Seif al-Islams, sonar Muammars Gaddafis Líbýuleiðtoga, og annarra um að breska stjórnin hafi beitt skosku heimastjórnina þrýstingi til að fá Megrahi leystan úr haldi.
Um helgina kom hins vegar fram að í bréfi sem Brown sendi Gaddafi hafgi hann rifjað upp að leiðtogarnir hafi hist í tengslum við G-8 fund á Ítalíu fyrir hálfum öðrum mánuði. Hann hafi þá sagt að ef Skotar létu manninn lausan væri rétt að efna ekki til „mikils fagnaðar“ í Líbýu þar sem það myndi koma illa við aðstandendur fórnarlamba Lockerbie-tilræðisins.
Áður hafði Brown staðhæft að einungis lítillega hafi verið minnst á Megrahi í samtali þeirra.